MND

Sími: (+354) 565-5727

MND árið 2013

MND Árið 2013-Bestu hátíðarkveðjur frá stjórn félagsins

Afmælisárið 2013 hefur verið viðburðarríkt. 20 ára afmæli MND félagsins var fagnað þann 20. febrúar með útgáfu afmælisrits og tónleikum á Grand Hótel. Glæsileg samkoma og mikið fjör. Þar söfnuðust peningar sem lögðu grunninn að nýrri heimasíðu félagsins sem við vinnum stöðugt að endurbótum á. www.mnd.is.

Á alþjóða MND deginum komum við saman á Ingólfstorgi í Reykjavík. Þar héldum við okkar árlega hjólastóla rallý. Þar var mikil keppni í öllum flokkum og glæsilegir sigurvegarar að venju. Sem reyndar voru allir sem þátt tóku. Á eftir voru að venju tónleikar með flottum tónlistarmönnum sem töfruðu fram ljúfa tóna af hreinni snilld.

Í ágúst var haldið í víking til Danmerkur þar sem 20 manna hópur frá okkur tók þátt í Norræna MND fundinum. Frábærir dagar, góð dagskrá og eðal aðstaða fyrir fatlaða. Það er óþarfi að nefna gestrisni Dana sem er rómuð af öllum og stóðst allar væntingar. Næsti fundur verður á Íslandi í komandi ágúst og undirbúningi miðar vel.

Í október héldum við á Hótel Selfoss með okkar árlegu slökunar og fræðsludaga. Mikið hlegið og hversdagnum gleymt um stund. Þetta verður örugglega endurtekið.

Þá kom desember með fund alþjóðasamtaka MND félaga í Mílanó á Ítalí. Við vorum óvenju mörg í tilefni afmælisársins. Þetta var að venju mikið puð en fræðandi og ánægjulegt í alla staði.

Við gátum aðstoðað félaga í neyð, stutt við fagfólk til námsferða auk kaupa á tækjum fyrir LSH. Þetta gátum við með aðstoð Íslendinga sem standa þétt við bakið á okkur.

Nú þegar 2014 gengur í garð látum við okkur hlakka til: fundar á Ísafirði í maí, Alþjóðadagsins í Júní, Norræna fundarins í ágúst, Selfoss í október svo eitthvað sé nefnt.

Við þökkum stuðninginn á undangengnum árum og vonandi getum við treyst á ykkur áfram á árinu 2014.

Muskelcraft

"Valur Höskuldsson, hirðskáld okkar MND félaga, svaraði nokkrum spurningum
eftir Norræna fundinn í Danmörku.

Smellið hér til að lesa umfjöllunina 

Alþjóðlegur MND dagur 21. júní

Alþjóðlegur MND dagur 21. júní Hvað skiptir okkur máli?

“Það sem kemur mér mest á óvart í mannlegri tilveru er að maðurinn fórnar heilsu sinni til að eignast peninga. Svo fórnar hann peningum til að ná aftur heilsu sinni. Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíð sinni að hann nýtur ekki augnabliksins. Afleiðingin er sú að hann lifir hvorki í nútíð né framtíð. Hann lifir eins og hann muni aldrei deyja – og svo deyr hann án þess að hafa lifað” (Dalai Lama) Það er okkur öllum hollt að hafa þessi orð í huga alla daga alltaf. Þegar manneskja greinist með MND sjúkdóminn, sem engin lækning er ennþá til við, þá er oft sagt að viðkomandi hafi fengið dauða dóm.

Það er auðvitað mjög alvarlegt og mikið áfall fyrir einstaklinginn sem og fjölskyldu og vini. En þegar og ef rofar til í hausnum á manni þá áttar maður sig á að þetta er kannski dómur um að lifa og njóta. Lifa og njóta hvers augnabliks sem þér er gefið. Ég persónulega hef valið þá leið enda sá tími sem ég var upptekinn við að deyja alveg hundleiðinlegur tími. Til að þetta val um að lifa sé raunverulegt þurfum við öll á Íslandi að sameinast um það sem er mikilvægast, að skapa öllum jafnan aðgang að okkar frábæra landi. Jöfn tækifæri til að njóta þess sem landið gefur af sér til sjávar og sveita. Við verðum að fagna öllum “tegundum” fólks.

Mismunandi á litin, mismunandi trúuð eða ekki trúuð, grænmetisætum, hvalkjötsætum, fötluðum, börnum, öldruðum og svo framvegis. Það verður að skapa pláss fyrir mismunandi fólk. Skilning og samkennd. Njótum augnabliksins í dag og alla daga. Íslendingum þökkum við stuðninginn við okkar litla félag og vonandi gerum við gagn.

Kærleikskveðjur Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins

Ljóð sent okkur frá Kína

Valur Höskuldsson, ljóðskáld þýddi ljóðið á skáldlegum nótum.

Sameinaðir MND sjúklingar. Líkt og vorvindur hlýr, þú stendur okkur við hlið Líkt og glóheit sólin, þú vekur okkur hlýju í huga Líkt og brosandi engill, þú fyllir okkur von og styrk Þín góðvild og hjartahlýja hljómar í okkar huga Að gera hluti af góðvild, er styrkur í veikindum Ávallt reiðubúinn að hjálpa með gleði umhyggju Allir MND veikir sameinumst, og tökumst á við sjúkdóm illann. Við erum ein fjölskylda, og hönd í hönd við munum hafa sigur.

Innskráning meðlima

Styrkja

Banki: 0516

Höfuðbók: 05

Reikningur: 410900

Kennitala: 630293-3089