Skip to main content
Fréttir

Vinnutækni við umönnun

By 28. júní 2013No Comments

Þrátt fyrir alla tækni og þróun hjálpartækja undanfarna áratugi, þá er það nú svo að þeir sem sinna umönnun eru sjálfir mikilvægasta hjálpartækið í daglegri umönnun. Það þarf að stjórna flestum hjálpartækjum og koma þeim fyrir á réttum stöðum fyrir notandann. Þar að auki þarf umönnunaraðilinn oftast að nota líkamlega krafta sína við umönnunina að einhverju leyti þó að fullkomnustu tæki séu fyrir hendi. Þá getum við einnig sagt að umönnunaraðilinn sjái skjólstæðingi sínum fyrir umhyggju, stuðningi og því sem venjulega flokkast undir mannleg samskipti (sem eru nauðsynleg til að fólki líði vel). Til þess að geta sinnt þessu öllu verður umönnunaraðilinn að huga að líkamlegri og andlegri vellíðan sinni.

 

Eftirfarandi skrif og myndir eru úr bókinni „Vinnutækni við umönnun“ sem Þórunn Sveinsdóttir sjúkraþjálfari gaf út í félagi við Ágústu Guðmarsdóttur, Borgarspítalann og Vinnueftirlit Ríkisins. Þórunn gaf félaginu bókina en faðir hennar, Sveinn Björnsson lést úr MND sjúkdómnum árið 2000.

Grunnreglur góðrar vinnutækni

Æskilegt er að:

  • vinna verkið sem næst líkamanum
  • halda eðlilegum sveigjum hryggjar
  • vinna með bakið í lóðréttri stöðu
  • vinna í góðu jafnvægi, hafa hæfilega stóran undirstöðuflöt
  • nota fætur, flytja líkamsþungann
  • virkja skjólstæðing, nota eðlileg hreyfimynstur mannsins
  • nota þægileg grip, ná góðu taki
  • forðast að lyfta með handafli
  • nota hjálpartæki
  • vinna í jöfnum og þægilegum takti

Ofangreind atriði eru undirstaða góðrar vinnutækni við öll dagleg störf. Með þjálfun verður okkur eðlilegt að fylgja þessum grunnreglum. Athugaðu hvort vinnuaðferðir þínar eru í samræmi við þessar reglur. Byrjaðu alltaf á að hugsa um að vinna verkið sem næst þér. Þá verður þér eðlilegra að nota fæturna, t.d. að ganga í kringum rúmið í stað þess að bogra yfir það eða teygja þig. Staða baks verður lóðrétt og eðlilegar sveigjur hryggjarins haldast. Gæta þarf þess að bæði fætur og andlit snúi alltaf að verkinu þannig að ekki myndist snúningur á hrygg.

Auður skjólstæðingsins

Umönnun byggir æ meir á þátttöku og virkni skjólstæðings. Við umönnunarstörf er ekki hægt að breyta stærð eða þyngd skjólstæðings. Því er samvinna við hann mikilvæg. Hlutverk umönnunaraðila er að upplýsa, leiðbeina, örva og hjálpa honum til að auka líkamlega getu sína. Á þann hátt er bæði dregið úr álagi á starfsmanns og skjólstæðingurinn fær staðfestingu á eigin getu, sem styrkir sjálfsmynd hans. Hversu mikla hjálp eigum við að veita einstaklingum án þess að hjálpa honum of mikið? Sjúklingar geta e.t.v. gert mun meira suma daga en aðra. Það er auðvelt að hugsa ekki út í þetta og hjálpa skjólstæðingnum alltaf á sama hátt. Miklu skiptir að vera ávallt vakandi fyrir því að ástand skjólstæðingsins getur verið breytilegt frá degi til dags. Taka ber tillit til getu einstaklingsins á margan hátt:

  • að henda reiður á hvað sjúkdómsgreiningin felur í sér og hvar sjúkdómurinn takmarkar hreyfingu hverju sinni
  • að hugleiða á hvaða hátt einstaklingurinn geti verið þátttakandi
  • að undirbúa tilfærslu skjólstæðingsins
  • að upplýsa og gefa einstaklingnum tíma til að skilja upplýsingarnar
  • að hvetja og leiðbeina einstaklingnum þannig að hann taki eins mikinn þátt og mögulegt er.

Ef skjólstæðingurinn fær (á sínum eigin hraða) að stjórna flutningi frá rúmi í hjólastól t.d. getur það orðið til að styrkja sjálfsímynd hans. Ef við reynum að skapa traust, þannig að skjólstæðingurinn verði óhræddur og virkur þátttakandi, verður hver tilfærsla þjálfun. Skjólstæðingurinn býr yfir auðlind sem ber að nýta bæði honum sjálfum og aðstoðarmönnum hans til góðs. Starf okkar verður léttara með því móti.

Upprunalega skrifað 30.8.2003