Skip to main content

Lög og reglur

LÖG MND Á ÍSLANDI

Samþykkt á aðalfundi 13. júní 2020

1.gr

Félagið heitir MND á Íslandi (MND ICELAND). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Stofnað 20. febrúar 1993.

2.gr

Hlutverk félagsins er að vinna að velferð þeirra sem haldnir eru MND hreyfitaugahrörnun, eða öðrum vöðva og taugasjúkdómum með sömu eða svipaðar afleiðingar. Einnig fjölskyldum þeirra og fagfólki sem vinnur að málefnum þessa hóps.

3.gr

Félagið er opið öllum sem hafa áhuga á hlutverki þess.

4.gr

Árgjald félagsins er ákveðið á aðalfundi.

5.gr

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar annarra verkefna félagsins en reksturs þess sjálfs skulu færðir sérstaklega og aðskildir frá rekstrarreikningum félagsins.

6.gr

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal  halda fyrir lok mars ár hvert. Til hans skal boðað bréflega eða á annan tryggilegan hátt með viku fyrirvara. Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum félagsins, sbr. 8.gr og 12.gr.

7.gr

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum þess.

2. Stjórn félagsins leggur fram endurskoðaða reikinga félagsins.

3. Kosning stjórnar og formanns.

4. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins.

5. Lagabreytingar.

6. Önnur mál.

8.gr

Lögum félagsins er aðeins hægt að breyta á aðalfundi. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði á dagskrá fundarins og skal efni hennar lýst. Til þess að lagabreytingartillaga nái fram að ganga þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja hana.

9.gr

Stjórn félagsins skal skipuð fimm manns. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs, en tvo stjórnarmenn skal kjósa í senn til tveggja ára, ár hvert. Stjórn félagsins er: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Stjórnin skiptir með sér verkum á sínum fyrsta fundi.

10. gr

Stjórn félagsins ræður málefnum þess milli aðalfunda með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Stjórnin tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og eins stjórnarmanns nægileg til þess. Til meiriháttar ákvarðanatöku eins og t.d. við kaup, byggingu eða sölu fasteigna í nafni félagsins skal þó ávallt boða til félagsfundar á sama hátt og til aðalfundar og ræður afl atkvæða úrslitum á slíkum fundum.

11.gr

Formaður boðar til stjórnarfundar með tryggilegum hætti og eins dags fyrirvara ef hægt er. Formanni er skylt að boða til stjórnarfundar ef tveir stjórnarmenn krefjast þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær, ef þrír stjórnarmenn sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Gerðir stjórnar skulu færðar til bókar.

12.gr

Nú kemur fram tillaga um slit á félaginu og skal hún sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytingar sbr. 8.gr. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til sambærilegs félags að vali fundarins.