Þetta er spurning sem vaknar hjá flestum einstaklingum með MND. Svarið er já, en hinsvegar þarf að velja þá þjálfun vel. Þjálfun er margskonar og mjög mismunandi hvað hentar hverjum og einum. Ef til vill hefur hreyfing verið áhugamál og því um að gera að halda því áfram eins og getan leyfir, á öruggan hátt. Styrktarþjálfun kemur hinsvegar ekki í veg fyrir að sjúkdómurinn þróist áfram, þ.e. við getum ekki dregið úr eða bætt skemmdir þær sem verða á hreyfitaugafrumum.
Markmið þjálfunar er því fyrst og fremst að varðveita eins mikinn styrk og færni og hægt er, eins lengi og hægt er.
Við getum:
- viðhaldið og bætt styrk þeirra vöðva sem ekki eru veikir
- viðhaldið hreyfanleika/teygjanleika vöðva, þar með talið hinna veiku
- viðhaldið hreyfanleika liða.
Eftirfarandi almenn atriði er gott að hafa í huga:
Hlustaðu á líkamann, ekki ofþreyta þig. Ef þú ert kraftminni eftir þjálfun en fyrir eða ert lengi eftir þig hefur þú gert of mikið.
Æfðu daglega, e.t.v. þarft þú að skipta æfingum niður yfir daginn, eða milli daga til að forðast ofþreytu.
Engin æfing ætti að valda sársauka.
Nýttu þér hjálpartæki til að auka færni og öryggi og spara orku.
Gott er að þjálfa í laug, þar fær líkaminn stuðning af vatninu og við getum nýtt okkur uppdrif vatnsins til að auðvelda hreyfingar upp á við eða styðja við láréttar hreyfingar.
Hversu mikið og hvernig er best að þjálfa fer eins og áður segir bæði eftir ástandi og áhuga einstaklings og verður að vera sniðið að honum eins og hann er á hverjum tíma.
Þjálfunaraðferðir
Liðferlisæfingar
Hvort sem um er að ræða virkar æfingar (þar sem þú sjálfur æfir) eða óvirkar (þar sem einhver aðstoðar þig við hreyfingu), er tilgangurinn að viðhalda hreyfiferlum, færni og líðan, þ.e. minnka líkur á verkjum. Þá er átt við æfingar fyrir alla liði, einnig háls og bol. Gott er að vinna þær kerfisbundið og sem mest virkt en með aukinni máttminnkun þarf að koma til aðstoð. Þar getur sjúkraþjálfari leiðbeint þér og aðstandendum.
Styrktaræfingar
Styrktaræfingar eiga við þegar vöðvar hafa ekki misst mátt. Sem dæmi gæti einstaklingur sem hefur engin einkenni frá fótum en máttminnkun í höndum, haldið áfram gönguferðum og þar með styrkt fætur. Annað dæmi væri: einstaklingur sem ekki getur lyft handlegg upp fyrir höfuð hefur lítið að gera með styrktaræfingar fyrir þann handlegg, en hins vegar liðferlisæfingar.
Vöðvateygjur
Við teygjum vöðvana til að viðhalda/auka lengd þeirra. Vöðvateygjur geta einnig dregið úr spennu í vöðvunum.
Öndun/öndunaræfingar
MND hefur áhrif á öndunarvöðva og því minnkar úthald þeirra og þú þreytist fyrr. Þetta gerist yfirleitt hægt. Þú getur hins vegar haft góð áhrif á öndunina með öndunaræfingum. Þær snúa ekki við minnkuðum mætti en viðhalda lungnarúmmáli og teygjanleika vöðvanna. Ef þér er þungt þegar þú liggur útaf, léttir öndunina að hafa hærra undir höfði og herðum. Slökun hefur einnig góð áhrif á öndunina. Um öndunina gildir það sama og um styrk, liðleika og færni annarra vöðva, að hana verður stöðugt að vera að endurmeta og þá meðferð sem hentar hverju sinni.
Verkir
Flestir einstaklingar með MND upplifa á einhverjum tíma einhverja verki. Oftast er þetta vegna breytinga á vöðvastyrk. Með minnkuðum vöðvastyrk fáum við aukið álag á liði og liðumbúnað og þess vegna gjarnan óþægindi frá stoðkerfi. Einstakling, sem situr meira en hann var vanur, getur verkjað í hrygg. Aukið máttleysi um öxl verður til þess að handleggur hangir e.t.v. í liðumbúnaði, minnkaður máttur í hendi getur leitt til þess að úlnliður stirðnar og gefur verki, svo dæmi séu tekin.
Við þessu er ýmislegt til ráða:
- bæta má stuðning, t.d. í stól vegna bakverkja, gæta þess að hafa stuðning undir handlegg við verk í öxl, e.t.v. bætir að hafa hendina í vasanum af og til eða nota fetil
- hreyfing virk og óvirk, t.d. er gott að sitja ekki of lengi í einu eða breyta um stöðu í stólnum
- mildur hiti getur stundum slegið á óþægindi
- ef til vill önnur meðferð
Af framansögðu er ljóst að þjálfun er nauðsynleg fyrir einstakling með MND en markmiðið er fyrst og fremst að viðhalda styrk og færni. Einstaklingurinn þarf að hlusta vel á líkamann, ofgera sér ekki, vera vakandi fyrir breyttu ástandi og þar með breytingum á þjálfun. Ofþreyta eykur bara máttminnkunina (tímabundið) og rænir orku frá daglegum athöfnum.
Heimildir:
Leigh P.N. & Swash M.: Motor Neuron Disease. Springer – Verlag. London. 1995.
„Resources for ALS Healthcare Providers“. Compiled by The ALS Society of Canada. 1994.
„Mobility Strategies“. The ALS Society of Canada. 1997.
Upprunalega skrifað 30.11.2003 –