Félagið hefur nýlega eignast bók sem heitir MAD UDEN BESVÆR en hún fjallar um það hvernig hægt er að matreiða fyrir fólk með MND sem á við kyngingarörðuleika og lystarleysi að stríða. Í bókinni eru uppskriftir ásamt fræðslu um næringarinnihald fæðunnar og annar fróðleikur sem tengist matargerð. Bókina skrifa Line Bak og Nanna Strange.
Við birtum hér uppskriftir og fróðleikskorn sem við vonum að þið getið nýtt ykkur.
Fjölbreytni
Það er mikilvægt að borða fjölbreytt fæði. Þannig fáum við í okkur þau næringarefni sem við þurfum og líkaminn nýtir þessi efni oft betur heldur en ef borðað er einhæft fæði.
Það getur verið erfitt að finna upp á nýjum réttum og við höfum tilhneigingu til að nota uppskriftir sem við þekkjum þegar. Það getur verið góð hugmynd, til að fá fjölbreytileika, að nota uppskriftabækur og að aðlaga þekktar uppskriftir nýjum aðferðum.
Framreiðsla
Framreiðsla matarins, lykt og útlit eru þættir sem hafa áhrif á matarlystina. Því er mikilvægt að hugsa um þessa þætti þegar matreitt er. Bragð- og lyktarskyn verður ekki fyrir áhrifum af MND svo að það er mikilvægt að nota þessi skynfæri. Maturinn ætti að vera borinn fram í litlum skömmtum. Með því verður máltíðin ekki eins óyfirstíganleg og síður hætta á því að maturinn kólni meðan á máltíð stendur því að það getur tekið langan tíma að matast.
Næringarefni
Ef upp koma vandamál við að tyggja eða kyngja og lystarleysi gerir vart við sig, getur orðið erfitt að sjá líkamanum fyrir nægjanlegri orku. Allir hafa þörf fyrir orku til þess að starfsemi líkamans hafi sem besta virkni. Ef þú ert veikur og getur ekki borðað svo mikið er mikilvægt að þú hugsir um hvort þú innbyrðir nægjanlega orku.
Þörfin fyrir orku er einstaklingsbundin. Við mælum því með að þú hafir samráð við næringarfræðinginn um þarfir þínar. Orkuþörf er háð hreyfingu, en við venjulega hreyfingu má reikna með að orkuþörf sé umreiknuð á eftirfarandi hátt: 150 kj (35 kkal) á hvert kíló líkamsþyngdar á dag.
Dæmi: Maður sem vegur 70 kg hefur daglega þörf fyrir c.a. 10000 kj (2500 kkal).
Orkan (kj/kkal) fæst úr fitu, kolvetnum og próteinum sem finnast í fæðunni.
Fitan er það næringarefni sem gefur mesta orku. Fitan er bæði sjáanleg og hulin í fæðunni. Sjáanleg fita er t.d. smjör, smjörlíki og olía. Hulin fita finnst í feitum mjólkurafurðum eins og osti, mjólk og rjóma. Hulin fita finnst einnig í feitum kjötstykkjum, majónesi, kökum og þess háttar.
Ef maður hefur þörf fyrir að neyta orkuríkari fæðu er hægt að nota þessar vörur í matargerðina. Þó getur maturinn orðið klígjukenndur ef notuð er of mikil fita.
Kolvetni gefa ekki eins mikla orku og fitan. Í fæðunni höfum við bæði einföld og flókin kolvetnasambönd. Einföld kolvetni eru fyrst og fremst í formi sykurs. Sykur er hægt að nota til að auka orku í fæðunni. T.d. með því að bæta aukasykri í kaffið, safann eða strá sykri á grauta.
Flókin kolvetni eru aðallega í grænmeti, ávöxtum, brauði, hrísgrjónum og pasta.
Þessar fæðutegundir innihalda trefjar, sem geta komið í veg fyrir hægðartregðu. Þessa trefjaríku fæðu getur þó verið erfitt að tyggja og kyngja nema hún sé matbúin á skynsaman hátt. Trefjarnar varðveitast við suðu og við það að mauka matinn.
Matur sem inniheldur mikið af flóknum kolvetnum er saðsamur en hann gefur okkur lítið af orku.
Við veikindi þarf mannslíkaminn á auknum prótínum að halda. Prótín gegna þýðingarmiklu hlutverki, m.a. varðandi uppbyggingu og viðhaldi á vöðvum. Ef líkaminn fær ekki nægjanlega orku (kj/kkal) og prótín með fæðunni, byrjar hann að nota eigin prótín og gengur á vöðvana. Prótín sér líkamanum ekki fyrir eins mikilli orku og fita gerir. Það er þó lífsnauðsynlegt að fá nægjanleg prótín. Þörfin fyrir prótín er mjög einstaklingsbundin. Það er talið að 1.0?1.5 gr af prótínum á hvert kíló líkamsþyngdar daglega sé nægjanlegt.
Dæmi: kona sem er 60 kíló hefur daglega þörf fyrir 60?90 gr af prótínum.
Þú getur rætt við næringarráðgjafann um þetta.
Prótínrík fæða er m.a. egg, mjólkurafurðir, ostur, kjöt og fiskur.
Þegar maður borðar ekki mikinn mat, getur verið erfitt að sjá líkamanum fyrir vítamínum og steinefnum. Þess vegna ætti að taka inn vítamín- og steinefnatöflu daglega. Ef það koma upp vandamál við að kyngja töflur má leysa þær upp og setja út í matinn.
Vökvi
Það er mikilvægt að sjá til þess að líkaminn fái nægjanlegan vökva. Það felur í sér að drekka 2-3 lítra yfir daginn. Hægðartregða getur auðveldlega komið upp ef ekki er neytt nægjanlega mikilla flókinna kolvetna, en það er algengt hjá fólki með kyngingarörðugleika. Þess vegna er mikilvægt að reyna að drekka eins mikinn vökva og mögulegt er.
Eldra fólki er sérstaklega bent á að vera vakandi yfir vökvamagninu því að þorstatilfinningin minnkar oft eða hverfur með aldrinum. Ef kyngingarvandamál eru fyrir hendi getur reynst erfitt að drekka þunna vökva. Með því að nota þykkingarefni er hægt að þykkja vökvann sem auðveldar kynginguna.
Góð ráð
Borðið minnst 5-6 máltíðir á dag. Þannig er hægt að minnka skammtinn í hverri máltíð.
Það er mikilvægt að halda matmálstímum í föstum skorðum. Reyndu að vera afslappaður og rólegur í byrjun máltíðar. Gefðu þér góðan tíma til að matast.
Það er mikilvægt að sitja rétt á meðan borðað er, það auðveldar kyngingu. Ræðið við iðjuþjálfa um þetta.
Ef þú ert með þykkt slím skaltu prófa að sjúga papaya ávöxtinn rétt fyrir mat. Í ávextinum eru ensím sem brjóta niður prótín í slíminu og þynnir það.
Mörgu fólki með MND og kyngingarvandamál, finnst kyngingin batna ef það setur ís á andlit og háls 1/2 til 1 tíma fyrir mat. Þetta er gert með því að halda poka með freðnum mat eða ísmolum við hálsinn í nokkrar mínútur. Með því örvar þú kyngingarviðbragðið. Þú getur einnig sogið ísmola rétt fyrir máltíð. Þú getur rætt þetta við iðjuþjálfann.
Þýtt og endursagt. FG
Upprunalega skrifað 1.12.2003 –