Guðni í faðmi vestfirðinga eftir maraþonið 2016
Aldarfjórðungur er nú liðinn frá stofnun MND-félagsins. Þörf fyrir þann félagsskap var þá brýn. Þeir sem veikjast af þessum illvíga sjúkdómi þurfa allan þann stuðning sem hægt er að veita. Þeir þurfa að finna styrk í samstöðu og þeir þurfa að eiga þá von að lækninga og lausna sé leitað í sífellu. Að þessu hefur félagið ykkar stuðlað í 25 ár. Ennþá er sama verk að vinna. Auðvitað má segja að það séu vonbrigði. Hvernig stendur á því að við erum enn ráðþrota andspænis þessum vágesti? Hvernig stendur á því, þrátt fyrir allar okkar framfarir í vísindum og tækni, að við kunnum engin ráð við MND? Við þessum og álíka spurningum eru engin einhlít svör. Hitt er þó skýrt að einmitt þess vegna verðum við að halda áfram að leita lækninga, og einmitt þess vegna þurfum við að sýna þeim samkennd sem á henni þurfa að halda.
Og við verðum að halda í vonina. Stefán Karl Stefánsson leikari sagði fyrr á þessu afmælisári MND-félagsins að sterkasta vopn langveiks fólks væri vonin, von sem er „sterkari en stál og beittari en sverð. Hún er kaldari og heitari en allt kalt og heitt.“ Höldum áfram að vona saman og vinna saman og að því kemur örugglega að við fögnum fullnaðarsigri.
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson