ALS er taugahrörnunarsjúkdómur, algengasta form hreyfitaugahrörnunar (MND). Þótt Quinn væri ekki upphafsmaður ísfötuáskorunarinnar tókst honum ásamt Peter Frates, fjölskyldu og vinum að gera hana að alþjóðlegu fyrirbæri.
Milljónir um allan heim tóku þátt í áskoruninni sem fólst í því að hella yfir sig heilli fötu af ísköldu vatni og setja myndband af því á netið. Tilgangurinn var að safna fé til rannsókna á ALS sjúkdómnum.
Alls söfnuðust um 220 milljónir dala í Bandaríkjunum og fjármagnið hefur skilað mikilvægum árangri í rannsóknum á sjúkdómnum. Víða annar staðar söfnuðust miklir peningar í gegnum áskorunina, þar á meðal á Íslandi.
Fjöldi frægðarfólks tók þátt í áskoruninni á sínum tíma, þar á meðal George W. Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseti, söngvarinn Justin Bieber og söngkonan Lady Gaga.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, knattspyrnukappinn Gylfi Sigurðsson og fjölmiðlakonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir voru meðal þeirra sem tóku áskoruninni hér á landi.
Nokkuð var deilt um hvort ísfötuáskorunin gæti verið hættuleg þeim sem tóku þátt og eins hvort hún beindi athyglinni of mikið að gerandanum og frá viðfangsefninu sjálfu.