Skip to main content
Fréttir

Síðasta fjallgangan

By 1. júlí 2013No Comments

Það mun hafa verið sumarið 1999 sem ég vann mitt síðasta stórafrek á sviði útivistar. Um tíuleytið þennan fagra sumarmorgunn mætti ég ásamt fleira fólki þar sem heitir Hrafnkelsstaðabotnar, rétt fyrir utan þorpið í Grundarfirði. Þetta hafði verið auglýst sem fjögurra tíma ferð með leiðsögumanni fyrir alla aldurshópa.

 

Þetta varð mjög svo eftirminnileg ferð uppá Svarthnjúk (800 m), Síðan var haldið sem leið lá fyrir ofan Hrafnafoss og síðast gengum við eftir fjallseggi með hrikalegu útsýni á báðar hendur og fór stundum um mann undarleg tilfinning er maður horfði niður eftir fjallshlíðinni. Síðan var farið niður þar sem heitir Gunnólfsfell, þar renndum við okkur niður skriðurnar niður á jafnsléttu. Er við skiluðum okkur til byggða með sára strengi og fyrirheit um góðar harðsperrur daginn eftir voru liðnir 10 tímar síðan við lögðum af stað! Hétu sumir því þá að þeir færu aldrei aftur í fjallgöngu.

Hví er ég að segja frá þessu, jú ég mun líklega ekki klífa fleiri fjöll um mína daga, því nýlega greindist ég með sjúkdóminn MND. Enn verra þykir mér að þurfa að gefa aðaláhugamál mitt upp á bátinn, að hætta að hjóla. Ég varð 46 ára í sumar sem leið.

Þegar ég lít til baka er ég fann fyrstu einkennin sam var á vordögum 2000, eftir mjög snjóþungan vetur, hélt ég að þetta væri eitthvað sem myndi rjátlast af mér þá um sumarið. Sú varð ekki raunin heldur hélt þetta áfram að vaxa og breiðast út frá fótum fyrst og svo til handleggja. Nú í haust þurfti ég að hætta að vinna og í dag er mánuður síðan ég fékk greininguna. Hvernig líður mér svo í dag. Jú, mér finnst á köflum að þetta sé í raun og veru ekki ég sem er með þennan sjúkdóm heldur að ég hafi fengið að vera viðstaddur er einhverjum öðrum (sem líkist mér) var tilkynnt að hann væri með MND og að ég fái að fylgjast með málum þannig að ég sé í hlutverki þess er safnar upplýsingum um sjúkdóminn og miðli því til míns sjálfs.

Jú, mér finnst á köflum að þetta sé í raun og veru ekki ég sem er með þennan sjúkdóm heldur að ég hafi fengið að vera viðstaddur er einhverjum öðrum (sem líkist mér) var tilkynnt að hann væri með MND.

Fyrstu dagana átti ég allt eins von á því að verða kallaður í annað viðtal þar sem mér yrði tilkynnt að ég væri ekki með MND heldur eitthvað allt annað. En nú veit ég betur og mun kappkosta við að reyna að fræðast sem mest ég má um sjúkdóminn og gera ýmislegt skemmtilegt þó ekki verði það fjallgöngur.

Reykjavík 14. desember 2003.

Valur Höskuldsson