Motor Nourone Disease – í sumum löndum kallað ALS eða Amyotropic lateral scolerosis, einnig Lou Gehrig sjúkdómirinn – er banvænn sjúkdómur sem ágerist venjulega hratt og herjar á hreyfitaugar líkamans sem flytja boð til vöðvanna. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi o.s.fv. Að lokum er um algera lömun að ræða. Vitsmunalegur styrkur helst þó óskaddaður í flestum tilvikum. Líftími sjúklinga eftir að þeir fá sjúkdóminn er frá 2 – 5 ár en sumir lifa lengur. Talað er um að 10% geti lifað 10 ár eða lengur. Á Íslandi eru á hverjum tíma 20-30 manns með MND. Á hverju ári greinast u.þ.b. 6 manns með MND og sami fjöldi deyr.
Ekki er vitað um orsök sjúkdómsins. Það er eitthvað sem veldur því að boð komast ekki á milli hreyfitaugafruma og vöðvinn svarar ekki því sem hugurinn vill. Hreyfitaugafrumurnar visna og deyja. Vegna hreyfingarleysis rýrna vöðvarnir. Mismunandi er hvernig sjúkdómsferlið er hjá fólki, hjá sumum byrjar sjúkdómurinn í taugum sem stjórna fótleggjum, hjá öðrum í taugum sem stjórna handleggjum og hjá enn öðrum byrjar hann í vöðvum sem stjórna öndun, kyngingu og tali. Sjúkdómurinn herjar á vöðva sem lúta viljastýrðum hreyfingur, þ.e.a.s. ekki vöðva eins og hjarta og önnur líffæri sem starfa óviljastýrt. Í mannslíkamanum eru ótal vöðvar og hefur hver og einn sitt hlutverk.
Fyrstu vísbendingar um sjúkdóminn er oftast máttleysi í útlim, kannski einum fingri eða fæti. Einnig breyting á tali og kynging verður erfiðari. Fleiri og fleiri vöðvar verða svo fyrir barðinu á sjúkdómnum.
Lang flestir sem fá MND hafa enga þekkta fjölskyldusögu um sjúkdóminn, þó er talið að arfgengi sé um það bil í 10% tilfella, sem við þekkjum í dag.