Skip to main content
Fréttir

Dvöl á Hælinu í ágúst 2014

By 15. september 2014No Comments

Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði

Nú er ég nýkomin heim eftir 4 vikna dvöl á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.  Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu yndislegt er að dvelja þarna og á eiginlega ekki til nógu sterk orð til að lýsa upplifun minni.  Það ætla ég samt að reyna að gera hér í þessum pistli.

Það kom nú kannski ekki til af góðu að ég sóttist eftir því að fá að dvelja á Hælinu, eins og svo margir kalla þessa stofnun.  Vorið hafði verið annasamt og hver helgi í maí upptekin af skemmtilegum viðburðum.  Í júní fór ég svo aðgerð sem gekk vel en í kjölfarið féllu tveir kærir vinir frá í einni og sömu vikunni og allt tók þetta á og orkan sem ég hafði þó búið að, var algjörlega búin.  Þegar um hægðist og ég taldi mig vera að skríða saman vildi ekki betur til en svo að ég átti skyndilegt og algjörlega óundirbúið stefnumót við svefnherbergisgólfið.  Ein heima og stálheppin að ekkert bein brotnaði og að ég rotaðist ekki.  Ég náði að staulast á fætur við illan leik og koma mér fram í sjónvarpssófann þar sem ég sat þar sem eftir lifði dags…já og næstu daga.  Á þessum tímapunkti var sumarið hálfnað og ég fann hvernig ég fylltist sjálfsvorkunn og algjöru orkuleysi.  Enda gat ég varla staulast um án þess að finna til.

Þetta frétti formaðurinn okkar, hann Guðjón, sem er vakandi sofandi yfir velferð okkar hinna.  Hann skrifaði mér bréf og benti mér á Heilsustofnunina í Hveragerði.  Ég greip þessa uppástungu tveimur höndum og gekk í það að gera þetta að veruleika.  Sá í hendi mér að þá fengi  eiginmaðurinn líka hvíld frá því að vera á þönum í kringum mig ásamt því að vinna fullan vinnudag.  Þarna myndi ég ná að slá tvær flugur í einu höggi ef svo má segja.  Ég var heppin því umsókn mín var tekin fyrir og mér boðið að dvelja á Heilsustofnuninni frá 7. ágúst til 3. sept.  Ég vissi ekkert hvað beið mín.  Vissi bara að þeir sem höfðu farið töluðu um Hælið og salat og gúrkur yfirleitt í sömu setningunni.  Já og ekkert kaffi!  Ekkert kaffi!  Það yrði áskorun fyrir mig vissi ég.

Svo rann innritunardagurinn upp og við hjónin mætt bæði á staðinn eftir að hafa flogið héðan frá Ísafirði um morguninn.  Eiginmaðurinn kom með og sá til þess að vel færi um eiginkonuna og hjálpaði til við að koma fötum og fylgihlutum fyrir sem og öllum vélunum sem fylgja manneskju með minn sjúkdóm.  Um leið og gengið er inn á stofnunina finnur maður að eitthvað gott er á sveimi.  Það er eins og það komi einhver ró yfir mann.  Kona í móttökunni afhenti okkur lykla að herberginu og ég fékk stundaskrá og svo var okkur boðið í göngu um stofnunina þar sem okkur yrðu sýndir helstu staðir.  Ég var til húsa í MND herberginu, eða Maggýjar stofu, sem er tileinkað minningu Magneu Karlsdóttur sem var búsett í Hveragerði og lést úr þessum sjúkdóm.  Herbergið er vel búið vægast sagt og mjög rúmgott og þar fór virkilega vel um mig.

Það var róleg dagskrá fyrstu dagana hjá mér.  Fyrst var að ná áttum í húsinu og læra að rata.  Ég villtist nokkrum sinnum og þurfti að leggja á minnið hvaða leið átti að fara til baka úr mötuneytinu  til herbergis en þetta hafðist allt.  Eitt af því sem einkennir húsnæðið eru langir gangar og ranghalar og maður kemst ekki hjá því að hugsa að það hafi örugglega verið viljandi gert að hanna húsnæðið svona.  Einhver hafði á orði að það væri tæpur hálfur kílómetri frá herbergi viðkomandi að mötuneyti og til baka.  Það er því drjúgur göngutúrinn innanhúss sem hefur verið genginn á hverjum degi.  En svo voru bara nokkur skref frá mötuneytinu að KAFFI-horninu!  Já það var þetta vistlega horn þar sem vistmenn gátu hellt sér upp á kaffi, setið í notalegri setustofu og sötrað sopann og átt gott spjall.  Þetta gladdi mína sem átti þó eftir að upplifa daga án kaffisopa og sakna þess ekki einu sinni!

Eftir fund við hjúkrunarfræðing og annan við lækni fær maður stundaskrá í hendurnar.  Í mínu tilfelli var dagurinn tekinn snemma og farið í morgunmat og svo gengið til dagskrár ef svo má segja.  Dagskráin er misþétt eftir dögum en það að vera megnug til að taka þátt í öllu sem sett er fyrir mann veitir góða tilfinningu.  Á minni stundaskrá voru liðir eins og gjörhygli eða íhugun, leikfimi, fyrirlestrar, göngutúrar, sjúkranudd og tímar hjá sjúkraþjálfara í æfingum, vatnsleikfimi og nálastungur svo eitthvað sé nefnt.  Stólaslökun með heitum bökstrum tvö kvöld í viku og svo slökun tvo seinniparta er svo eitthvað sem er mjög eftirsóknarvert að komast í. Svo voru alltaf kvöldvökur á fimmtudagskvöldum, spilavist á mánudagskvöldum og ýmsar aðrar uppákomur sem ekki voru á stundaskrá en auglýstar á upplýsingatöflu.

Starfsfólkið sem starfar þarna er svo alveg sér kafli út af fyrir sig.  Það er sama til hvaða starfsmanns er leitað alltaf mætir maður brosandi og yndislegu viðmóti.  Allir vilja allt fyrir mann gera.  Svo er það svo magnað hversu vel upplýsingaflæðið er á milli starfsmanna.  Þannig að ef það er eitthvað sem angrar mig þá vita allir starfsmenn sem að mér koma af því og fylgjast með.

Og nú er ég komin heim og hlakka til að takast á við þau markmið sem ég setti mér fyrir heimferð.  Ég sagði í gríni í einu kaffispjallinu að ég væri að hugsa um að flytja lögheimili mitt á stofnunina því mér liði svo vel þar.  En það sem skiptir máli er að taka með sér það sem maður lærði og tileinkaði sér og halda áfram þegar heim er komið.   

Ég vil þakka fyrir mig og vona að fleiri eigi eftir að upplifa töfra Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.

Inga Sigga