Skip to main content
Fréttir

Heimsókn til læknisins

By 1. júlí 2013No Comments

Hvernig á að tala við lækninn

Verður þér einhverntímann orðavant á skrifstofu læknisins? Gleymir þú öllum spurningunum sem þú ætlaðir að spyrja hann? Og manst þær þegar þú kemur heim?

 

Það getur valdið álagi að hitta lækninn. Ókunn læknisfræðileg hugtök geta vafist fyrir þér, þú veltir fyrir þér möguleikum meðferðar, finnst þú þurfa að flýta þér, eða ert með áhyggjur yfir því að þú fáir ekki rétta meðhöndlun vegna sjúkdómsins. Það er ýmislegt sem þú getur gert til að fá sem mest út úr heimsókninni til læknisins.

Þú skalt undirbúa þig

Aflaðu þér upplýsinga um sjúkdóminn. Skrifaðu spurningar og vangaveltur niður á blað. Það hjálpar þér að muna það sem þú vilt minnast á. Bættu við upplýsingum um hvaða lyf þú ert að taka og þær upplýsingar um sjúkdóma í fjölskyldunni sem þú heldur að geti skipt máli. Athugaðu hvort þú ættir að taka einhvern með þér í viðtalið sem getur tekið niður punkta, sem spyr jafnvel spurninga sem þér yfirsést og sem hjálpar þér að muna það sem læknirinn segir.

Á meðan á heimsókn stendur

Þú skalt spyrja mikilvægustu spurninganna snemma í viðtalinu. Með því getur læknirinn einbeitt sér fyrst að því sem þú helst vilt vita. Ef þið farið yfir listann þinn í sameiningu getið þið séð hvort að þörf sé á öðru viðtali fljótlega til að fara yfir allt það sem þú ert að hugsa um.

Taktu niður punkta

Með þessu manstu betur það sem læknirinn segir. Biddu þann sem er með þér að skrifa hjá sér upplýsingarnar svo að þú getir einbeitt þér að því sem læknirinn segir og spurt hann spurninga.

Segðu lækninum ekki bara frá líkamlegum einkennum heldur einnig frá hugsunum þínum og tilfinningum.

Ef til vill viltu vita kosti og galla þeirra meðferða sem í boði eru, um það hvernig daglegt líf þitt getur breyst, og hvernig áhrif sjúkdómurinn getur haft á fjölskyldu þína og atvinnu.

Ef þú vilt vita meira en læknirinn getur svarað þér í þessari heimsókn skaltu biðja um upplýsingabæklinga sem þú getur tekið með þér heim til að lesa. Bókaðu næstu heimsókn þar sem þið getið farið yfir þær upplýsingar sem þá bætast við.

Láttu vita ef það er eitthvað sem þú skilur ekki. Þú getur beðið lækninn um að útskýra læknisfræðileg hugtök, eða endursegja á einföldu máli það sem vefst fyrir þér.

Endurtaktu það sem læknirinn sagði með þínum eigin orðum. Það getur komið í veg fyrir misskilning og að þú missir ekki af mikilvægum atriðum og hjálpar þér að muna.

Þú getur beðið um að læknirinn skrifi eitthvað niður ef þér finnst þínir punktar ekki nægja.

Þú þarft ekki að vera feiminn við að biðja um álit annarra lækna.

Eftir heimsóknina

Skoðaðu það sem þú eða vinur þinn skrifaði niður.

Haltu dagbók. Skrifaðu niður það sem þú fékkst að vita hjá lækninum, hjá öðru fólku eða það sem þú sjálfur hefur aflað þér upplýsinga um. Skrifaðu sjúkdómseinkenni þín niður, lyf sem þú ert að taka og þær spurningar sem vakna. Farðu yfir það sem þú hefur skrifað niður áður en næsta viðtal við lækninn fer fram.

Gott er að kunna skil á læknisfræðilegum hugtökum sem varða sjúkdóminn, það getur auðveldað þér að fylgjast með og stjórna meðferð. Náðu þér í þær upplýsingar sem þú þarft á að halda. Ef þú ert ekki sátt við þá möguleika sem læknirinn hefur sett upp þá skaltu leita þér nánari upplýsinga áður en þú tekur ákvörðun. Ræddu málin við vini og fjölskyldu.

Ef þér finnst að upplýsingstreymi milli þín og læknisins ekki nógu gott mundu þá að þú hefur rétt á því að skipta um lækni.

 

Þýðing: FG

Upprunalega skrifað 2.4.2004 –